Ríkisstjórnir Svíþjóðar og Noregs hafa fordæmt framgöngu Ísraels á Gaza-svæðinu og sagt innrás hersins á svæðið vinna gegn því að mögulegt verði að finna að pólitíska lausn á vandanum á svæðinu.
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir möguleikann á sáttum hafa minnkað „stórkostlega“. „Möguleikinn á sáttum, á grundvelli viðræðna á næstu dögum, hefur minnkað mikið. Ákvörðun Ísraels um að ráðast fram af þeirri hörku sem einkennt hefur ástandið undanfarinn sólarhring mun leiða til þess að erfiðara verður að finna lausn á málum.“
Bildt er nú á leið til Mið-Austurlanda, ásamt fleiri þjóðarleiðtogum og embættismönnum, sem freista þess að binda enda á stríðsátök á svæðinu.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, segir hernaðaraðgerðir Ísraels, og flugskeytaárásir Hamas-liða, bitna verst á þeim sem ekki geta varið sig. „Það er ekki til hernaðarleg lausn á vandanum á Gaza-svæðinu. Innrás Ísraelshers á Gaza-svæðið, á jörðu niðri og í lofti, hefur bein áhrif á þúsundir sem geta ekki varið sig og ekki flúið. Það er aðeins eitt fórnarlamb í þessum stríðsátökum; óbreyttir borgarar í báðum liðum.“