Þriggja milljóna evra neyðaraðstoð til Gaza

Að minnsta kosti 500 Palestínumenn, þar af tæplega 90 börn, hafa farist í átökum Ísraela við Hamas samtökin á Gaza svæðinu undanfarna níu sólarhringa. Þá er talið að 2450 hafi særst í átökunum.

„Tölurnar gætu verið miklu hærri. Fólk liggur látið og sært á víð og dreif á götum úti en við höfum ekki komist til að hjálpa því,“ segir Moawiya Hassanein, yfirmaður bráðaþjónustunnar á Gaza svæðinu.

Evrópusambandið hét í dag þriggja milljóna evra framlagi til neyðarhjálpar á Gaza. Sendinefnd háttsettra leiðtoga ESB hélt í dag til Mið-Austurlanda til að freista þess að koma á vopnahléi.

Í yfirlýsingu ESB segir Palestínumenn skorti nauðsynlega matvæli, neyðarskýli og lyf og neyðaraðstoð verði veitt eins fljótt og kostur er.

Bretar og Frakkar vara við því að innrás landhers Ísraela geri vart annað en magna deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Tékkar, sem nú fara með forsæti í ESB hvöttu Ísraela til að heimila hjálparsamtökum að veita neyðaraðstoð á Gaza svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert