Börn 30 prósent særðra

Reuter

Norskur læknir á Gaza svæðinu, Erik Fosse, fullyrðir að fjöldi óbreyttra borgara meðal fallinna og særðra sé langt yfir 50 prósentum. Læknirinn segir í skilaboðum til norska blaðsins Verdens Gang í morgun að tölur Sameinuðu þjóðanna, það er að einn af hverjum fjórum þeirra rúmlega 500 sem látist hafa, séu rangar.

Fosse, sem starfar á einu af sjúkrahúsunum á Gaza, segir að börn séu nær 30 prósent særðra sem eru 2450 talsins og konur 15 prósent.

Að sögn læknisins er ástandið skelfilegra en hann hefur nokkurn tíma upplifað en hann hefur starfað víða um heim.

Snemma í morgun drápu ísraelskir hermenn sjö manna fjölskyldu, föður, móður og fimm börn, í flóttamannabúðunum Beach Camp þegar gerð var árás á hús fjölskyldunnar.

Í morgun kröfðust fulltrúar múslímaþjóða sérstaks fundar í Sameinuðu þjóðunum til þess að ræða ástandið á Gaza svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert