Alþjóða Rauði krossinn sagði í dag, að fólk, sem særðist í átökunum á Gasasvæðinu undanfarna daga, hafi látist vegna þess að sjúkrabílar náðu ekki til þess. Segir talsmaður samtakanna að mjög flókið sé að skipuleggja sjúkraflutninga vegna linnulausra loftárása og hernaðaraðgerða.
„Sært fólk lætur lífið á meðan beðið er eftir sjúkraflutningabílum Rauða hálfmánans," sagði Dorothea Krimitsas, talsmaður Rauða krossins í Genf. sai Samtökin hafa einnig áhyggjur af vatnsbólum á svæðinu.
Sagði Krimitsas að tveir vatnsbrunnar af 45 væru óvirkir vegna þess að sprengjur Ísraelsmanna lentu á þeim. Hætta sé á að hálf milljón manna, um þriðjungur íbúa á Gasasvæðinu, verði án drykkjarvatns.
Mahmud Abbas, forseti heimastjórnar Palestínumanna, sagði í dag að heimastjórnin muni ekki reyna að nýta sér ástandið á Gasasvæðinu til að ná völdum þar úr höndum Hamassamtakanna. Hamas náði völdum á Gasa í júní 2007 og rak öryggissveitir, hliðholla Abbas, á brott. Heimastjórnin ræður hins vegar ríkjum á Vesturbakkanum.