Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, segir að ísraelskir hermenn hafi umkringt Gasaborg að hluta og harðar árásir hafi verið gerðar á Hamas. En þrátt fyrir það hafi herinn ekki náð öllum þeim markmiðum sem hann setti sér og því verði árásum haldið áfram á Gasasvæðinu.
„Við erum að gera allt það sem ríki þarf að gera til þess að vernda borgara sína. Við viljum stöðva árásir á íbúa Ísraels og hermenn okkar," segir Barak.
Að sögn Baraks hafa yfir fimm hundruð Palestínumenn fallið í árásum Ísraela en flestir þeirra séu liðsmenn Hamas-hreyfingarinnar sem er við völd á Gasa. Segir hann að um 2.200 séu særðir.
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisstarfsmönnum á Gasa eru að minnsta kosti 517 látnir, þar á meðal 87 börn og tugir annarra óbreyttra borgara. Yfir 2.500 séu særðir eftir árásir Ísraelsmanna sem staðið hafa yfir frá 27. desember sl. Þrír óbreyttir borgarar hafa fallið og einn hermaður í árásum Hamas-liða á Ísrael á sama tíma.