Að minnsta kosti 12 manns úr sömu fjölskyldu létu lífið í loftárás Ísraelsmanna á hús í Gasaborg í nótt. Tvö flugskeyti lentu á húsinu sem hrundi til grunna. Sjö börn á aldrinum eins til 12 ára, þrjár konur og tveir karlmenn létust í árásinni.
Vegfarandi lét einnig lífið og talið er að 9 til viðbótar séu grafnir undir húsarústunum.
Að sögn sjónarvotta er einn úr fjölskyldunni, Abu Hamza, félagi í Hamassamtökunum og bjó áður í húsinu, sem var fjölbýlishús með sjö íbúðum. Abu Hamza yfirgaf hins vegar húsið ásamt konu sinni og börnum þegar Ísraelsmenn hófu hernaðaraðgerðir á Gasa 27. desember.