Engar auglýsingar voru á ríkisreknu sjónvarpsstöðvunum í Frakklandi í gærkvöld vegna banns um auglýsingar eftir klukkan átta á kvöldin.
Er þetta í fyrsta sinn frá árinu 1968 sem hægt er að horfa á sjónvarpssendingar ríkisreknu sjónvarpsstöðvanna að kvöldlagi án auglýsinga. Frá og með árinu 2011 verða engar auglýsingar á France 2 og France 3.
Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti sagði í kosningabaráttu sinni að hann vildi menningarbyltingu á ríkisreknu sjónvarpstöðvunum og er fyrsti áfanginn nú hafinn. Stjórnvöld hafa lofað að leggja til þær 450 milljónir evra sem stöðvarnar þénuðu á auglýsingunum. Peningarnir eiga meðal annars að koma frá sérstökum skatti á einkareknar stöðvar.
Vakið hefur athygli að forsetinn hyggst sjálfur skipa sjónvarpsstjóra ríkisreknu stöðvanna.