Ísraelskir skriðdrekar óku inn í Khan Yunis, stærstu borg suðurhluta Gasasvæðisins rétt fyrir dögun.
Hersveitir Ísraela og Hamasliðar börðust þá við útjaðra Gasaborgar í nótt og er það þriðja kvöldið í röð sem landgöngulið Ísraelshers hefur staðið fyrir árásum á borgina.
Þrír ísraelskir hermenn féllu og um 20 aðrir særðust á Gaza í gærkvöldi þegar ísraelskur skriðdreki skaut fyrir mistök á samherja sína. Höfðu hermennirnir hertekið byggingu sem skriðdrekinn síðan skaut á. Þar með hafa fjórir ísraelskir hermenn og fjórir ísraelskir borgarar fallið, að sögn BBC, á þeim tíu dögum sem liðnir eru frá því að innrás Ísraelsmanna á Gaza hófst.
Mannfall Palestínumanna er mun meira, en talið er að um 540 Palestínumenn hafi fallið og 2.500 særst.