Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Breta og sérstakur sendimaður Kvartettsins svokallaða í Miðausturlöndum, segir það grundvallarskilyrði fyrir því að vopnahlé náist á milli Ísraela og herskárra Palestínumanna á Gasasvæðinu að komið verði í veg fyrir vopnasmygl til Hamas-samtakanna á svæðinu.
Blair segir að nauðsynlegt sé að tryggja öryggi Ísraels með því að koma í veg fyrir að liðsmenn Hamas geti haldið uppi flugskeytaárásum yfir landamærin til Ísraels. Þá segir hann að Ísraelar muni einungis fallast á að hætta ellefu daga hernaði sínum á Gasasvæðinu verði þetta tryggt.
Samkvæmt upplýsingum sameinuðu þjóðanna hafa a.m.k. 500 Palestínumenn látið lífið í árásum Ísraela en einn af hverjum fjórum föllnum Palestínumönnum mun hafa verið óbreyttur borgari.
Ísraelar hófu hernað sinn eftir að Hamas samtökin, sem ráða Gasasvæðinu, lýstu því yfir að sex mánaða vopnahlé þeirra við Ísraela væri útrunnið. Í kjölfar þess fór flugskeytum að rigna yfir landamæri Gasasvæðisins til Ísraels. Sum flugskeytanna eru smíðuð á Gasasvæðinu en öðrum hefur verið smyglað þangað um jarðgöng frá Egyptalandi.