Ísraelsmenn ætla að leyfa hjálparstarfsmönnum að fara inn á Gasasvæðið og koma hjálpargögnum til íbúa, að sögn Ehuds Olmerts, forsætisráðherra Ísraels. Sagði Olmert, að opnuð yrði „mannúðargátt" inn á svæðið. Ísraelsmenn hafa nú haldið uppi hernaðaraðgerðum á Gasasvæðinu í 11 daga.
Skrifstofa Olmerts segir, að hugmyndin hafi komið frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og forsætisráðherrann hafi fallið á hana. Gert er ráð fyrir að Ísraelsmenn hætti tímabundið árásum á tiltekin svæði á GAsa svo íbúar þar geti fengið vistir og hjálpargögn. Markmiðið er, að því er kemur fram í tilkynningu, að koma í veg fyrir hörmungar á Gasasvæðinu.
Ísraelsmenn segjast hafa tryggt að nægar birgðir berist inn á Gasasvæðið frá því átökin hófust en SÞ segja að þar sé þegar mikil neyð vegna skorts á matvælum, eldsneyti og lyfjum.