Ráðherra efnahagsmála í Slóvakíu, Lubomir Jahnatek, sagði á blaðamannafundi áðan í Bratislava að lýst verði yfir neyðarástandi í landinu í dag eftir að gasflutningar til landsins frá Rússlandi drógust saman um 70%.
Yfirmaður úkraínska gasfélagsins Naftogaz, Oleh Dubina, tilkynnti í dag að hann myndi fara til Moskvu á fimmtudag til þess að ræða deiluna um gasflutninga frá Rússlandi. Deilan, sem snýst um vangoldna reikninga Úkraínumanna, hefur mikil áhrif á gasflutninga til Evrópu en sex Evrópuríki hafa tilkynnt um að slökkt hafi verið á gasinnflutningi til ríkjanna í gegnum leiðslur sem liggja í gegnum Úkraínu frá Rússlandi.
Evrópusambandið hefur lýst því yfir að þetta sé gjörsamlega óásættanlegt að ríki innan sambandsins fái ekki lengur gas flutt inn frá Rússlandi.