Að minnsta kosti 40 manns létu lífið þegar Ísraelsmenn gerðu loftárás á byggingu í bænum Jabaliya á Gasasvæðinu þar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa rekið skóla. Fólk hafði leitað skjóls í skólanum undan sprengjuregni Ísraelshers.
Þetta er í annað skipti á sama sólarhring sem árás er gerð á skóla á vegum SÞ á Gasasvæðinu. Í báðum tilfellum hafði fólk leitað sér skjóls í byggingunni.
Fullyrt er að yfir 635 óbreyttir Palestínumenn hafi látið lífið í hernaðaraðgerðum á Gasasvæðinu, sem nú hafa staðið yfir í 11 daga. Fulltrúar Rauða krossins segja að ástandið á svæðinu sé skelfilegt og hætta á að fjöldi manns deyi á meðan beðið er læknishjálpar og sjúkraflutninga.
Ísraelsmenn hafa ekki viljað tjá sig um mannfallið en þeir hafa sagt að Hamassamtökin noti skóla, moskur og íbúðarhverfi til að skýla sér fyrir árásum Ísraelsmanna.