Finnar hyggjast verja 500.000 evrum til aðstoðar íbúum á Gaza-svæðinu. Fram kemur í tilkynningu frá finnska utanríkisráðuneytinu að Paavo Väyrynen, viðskipta- og þróunarmálaráðherra Finnlands, hafi ákveðið að verja fjárhæðinni til hjálparstarfs og til að styrkja starf Alþjóða Rauða krossins á Gaza.
„Neyðarástand ríkir nú á Gaza. Fólk vinnur nú hjálparstörf við afar erfiðar aðstæður í miðju stríði á Gaza, sem er afar þéttbýlt svæði,“ segir jafnframt í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.
Að minnsta kosti 680 Palestínumenn, þar af 220 börn, og 11 Ísraelar hafa fallið í átökunum, sem hófust í lok desember.