Ísraelsher mun gera þriggja klukkustunda hlé á sprengjuárásum sínum á Gaza-svæðið dag hvern frá og með deginum í dag, að sögn talsmanns hersins.
„Ákveðið var að gera hlé á sprengjurárásum á milli klukkan eitt og fjögur (11 til 14 að íslenskum tíma),“ hefur AFP eftir talsmanninum. "
Tilkynningin kom stuttu eftir Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísrael, tilkynnti að Ísraelar myndu opna eins konar mannúðarleið inn á Gaza-svæðið til að gera hjálparsamtökum kleift að koma íbúum á svæðinu til hjálpar.
„Þetta felur í sér að ákveðin svæði verða opin í ákveðinn tíma og innan hans geta íbúar leitað aðstoðar og náð sér í vistir,“ segir í yfirlýsingu Olmerts.
Alþjóðasamfélagið þrýstir nú í síauknum mæli á Ísraela að hætta hernaðaraðgerðum sínum á Gaza-svæðinu.
Sameinuðu þjóðirnar höfnuðu í dag þá alfarið ásökunum Ísraelshers um að Hamas-liðar hafi hafst við í al-Fakhura skólann, þar sem að 42 létu lífið er Ísraelar létu sprengjum rigna á skólann í gær.
„Í kjölfar frumrannsóknar okkar erum við 99.9% viss um að engir árásarliðar eða hernaðarstarfsemi hafi farið fram innan skólabygginganna,“ segir Christopher Gunness, talsmaður flóttamannahjálpar Sþ í Palestínu.