Peres segir Hamas-samtökin ábyrg

Shimon Peres forseti Ísraels.
Shimon Peres forseti Ísraels. Reuters

Shimon Peres, forseti Ísraels, lýsti því yfir í dag að Ísraelar hafi ekki áhuga á að endurnýja sex mánaða vopnahlé sitt við Hamas-samtökin á Gasasvæðinu heldur vilji þeir binda varanlegan enda á hryðjuverkaárásir þaðan. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Þá sagði hann Ísraela nú vera að yfirfara hugmyndir Hosni Mubaraks, forseta Egyptalands, og Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, um leiðir til að binda enda á átökin á Gasasvæðinu. „Við viljum ekki vopnahlé heldur endalok hryðjuverka,” sagði hann í viðtali við bresku sjónvarpsstöðina Sky.

Þá sagði hann enga aðra þjóð lifað við jafn langvarandi hryðjuverkaógn og Ísraela og ítrekaði að eini tilgangur hernaðar Ísraela á Gasasvæðinu nú væri að rjúfa umsátur hryðjuverkamanna sem haldið hafi Ísraelum í herkví.

Peres sagði Ísraela vera meðvitaða um þær þjáningar sem almennir borgarar á Gasasvæðinu líði en að Hamas-samtökin beri ábyrgð á þeim. „Við viljum að Hamas-liðar geri sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna,” sagði hann. „Læri hryðjuverkamenn sína lexíu þá getum við öll fagnað sigri.”

Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, lýsti því yfir í gær að hann styddi hugmyndir Mubaraks um grunn að vopnahléssamkomulagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert