Sögulegur hádegisverður

Reuter

George W. Bush Bandaríkjaforseti bauð öllum fyrirrennurum sínum sem eru á lífi og verðandi Bandaríkjaforseta, Barack Obama, í hádegisverð í Hvíta húsinu í Washington í dag. Fyrrverandi forsetarnir sem komu í hádegisverðinn voru þeir Bill Clinton, George H. W. Bush og Jimmy Carter.

Obama er sagður hafa átt hugmyndina en Bush var gestgjafinn. Sá síðarnefndi kvaðst vona að Obama yrði farsæll í starfi og hann kvaðst viss um að það vonuðu þeir allir.

Clinton er sagður hafa verið hrifinn af húsbúnaðinum sem Bush hafði valið fyrir skrifstofuna sína og sagði að sér fyndist teppið æðislegt.

Samskonar fundur mun síðast hafa átt sér stað 1981 en þá ræddu menn um það hver yrði fulltrúi Bandaríkjanna við útför Sadats Egyptalandsforseta. Jimmy Carter er sá eini sem var á báðum fundunum en með honum á fyrri hópfundi forsetanna voru Ronald Reagan, Richard Nixon og Gerald Ford.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert