Friðarráðherra Páfagarðs, Renato Martino kardináli, gagnrýnir harðlega aðgerðir Ísraela í Palestínu og líkir Gasaströndinni við „allsherjar útrýmingarbúðir." Þetta kemur fram á vef BBC.
Fréttaskýrendur segja þetta hörðustu gagnrýni sem komið hafi úr Vatíkaninu, síðan árásirnar hófust fyrir tæpum tveimur vikum. Sakaði kardínálinn báða deiluaðila um að hugsa aðeins um eigin hagsmuni á meðan saklaust fólk liði. Benedict páfi hefur þegar kallað eftir því að átökunum linni.
Martino kardináli sagði varnarlausar þjóðir alltaf þurfa að blæða í slíkum átökum. Ummæli hans voru þegar í stað gagnrýndar af Ísraelum, sem sögðu Vatíkanið vera að breiða út áróður Hamas samtakanna.
Fréttaskýrandi BBC bendir á að sambandið milli Ísrael og Páfagarðs hafi versnað til muna nýlega, eftir að Benedikt páfi gerði það ljóst að hann vildi taka Píus páfa í dýrðlingatölu. Píus, sem ríkti á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, hefur verið sakaður af sumum gyðingum um að hafa horft fram hjá helförinni.