Utanríkisráðherrar vestrænna ríkja og arabalanda hafa náð samkomulagi um drög að ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem þess er krafist að komið verði tafarlaust á vopnahléi á Gaza-svæðinu.
Ryad Mansour, áheyrnarfulltrúi Palestínumanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að Bandaríkin, Bretland og Frakkland hefðu samþykkt tillögur arabaríkja um breytingar á drögunum. Hann bætti við að búist væri við því að ályktunin yrði samþykkt einróma í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Fundur hófst í öryggisráðinu klukkan tíu í kvöld og er búist við því að ályktunin verði borin undir atkvæði.
Vestrænn stjórnarerindreki staðfesti að náðst hefði samkomulag um texta þar sem hvatt væri til þess að komið yrði á „tafarlausu og varanlegu vopnahléi, sem yrði virt að fullu“ og leiddi til þess „allt herlið Ísraela yrði flutt frá Gaza“. Í ályktunardrögum, sem Bretar sömdu, var aðeins „lögð áhersla á þörfina á vopnahléi“, að sögn heimildarmanna.