Aðeins klukkustundum eftir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun þar sem tafarlauss vopnahlés var krafist á Gasa vörpuðu Ísraelar sprengjum yfir Gasaströndina og nýjar eldflaugaárásir voru gerðar á Ísrael frá Gasa.
Ísrael varpaði meira en 50 sprengjum úr lofti á svæðið sem að sögn hjálparliða grönduðu a.m.k. 12 óbreyttum borgurum. Ísraelski herinn sagði að níu loftskeytaárásir hefðu verið gerðar frá Gasa inn í suðurhluta Ísrael og að einn hefði særst í árásunum.
Að sögn hersins hæfðu Ísraelsmenn fimm skotpalla og einn þeirra var staðsettur nærri mosku. Þá hæfðu Ísraelar vopnageymslu að eigin sögn, fimm vopnaframleiðslustöðvar sem og hús sem hýsa stjórnstöðvar Hamas samtakanna.
Þá undirbjó ísraelski herinn einnig stórskotaliðsárás á Gasa.
Öryggisráð SÞ samþykkti í nótt ályktun þar sem tafarlauss og varanlegs vopnahlés er krafist og farið fram á að Ísrael dragi her sinn frá Gasa. Bandaríkin, sem er helsta bandaþjóð Ísraela, sat hjá við atkvæðagreiðsluna en beitti ekki neitunarvaldi.
Nærri 800 Palestínumenn hafa látist frá því að árásir Ísraela á Gasaströndina hófust þann 27. desember síðastliðinn. Ellefu ísraelskir hermenn og þrír óbreyttir borgarar hafa látið lífið í loftskeytaárásum Palestínumanna á Ísrael á sama tíma.