Öryggisráðið krefst vopnahlés

Ísraelskar herflugvélar héldu áfram að varpa sprengjum yfir Gasaströndina í nótt. Á sama tíma krafðist öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tafarlauss vopnahlés svo að binda mætti enda á hin mannskæðu átök sem kostað hafa nærri 800 manns lífið. Bandaríkin skrifuðu ekki undir ályktunina.

Ályktun ráðsins var nærri einróma þar sem kallað var eftir tafarlausu og varanlegu vopnahléi og að ísraelski herinn drægi sig að fullu til baka frá Gasa.

Einnig var krafist að neyðargögnum, s.s. mat, eldsneyti og læknishjálp, yrði óhindrað komið til stríðshrjáðra á Gasaströndinni. Þá var hvatt til aðgerða sem myndu miða að því að opna fyrir nýjar leiðir fyrir hjálparstarfsemi á svæði.

Bandaríkjamenn, sem eru helstu bandamenn Ísraela, skrifuðu ekki undir ályktunina, sem varð til eftir langar samningaviðræður milli utanríkisráðherra Arabaríkja og hins vestræna heims. Þeir beittu þó ekki neitunarvaldi.

Utanríkisráðherra Bandadríkjanna, Condoleezza Rice, sagði ástæðu þess að Bandaríkin skrifuðu ekki undir þá, að þau vildu sjá hvað kæmi út úr friðarviðræðum sem forseti Egyptalands mun leiða en hann hefur boðið sendinefndum Ísrael og Palestínu til Kaíró til að ræða skilyrði fyrir vopnahlé.

Hún sagði að Bandaríkin styddu hins vegar orðalag, markmið og tilgang ályktunarinnar og því væri eðlilegt að hún fengi framgang innan öryggisráðsins.

Jafnvel þótt það veiki töluvert ályktunina að Bandaríkin undirrita hana ekki mun hún auka þrýstinginn á Ísrael að enda átökin sem hingað til hafa kostað 777 Palestínumenn lífið, ef marka má heilbrigðisstarfsfólk á Gasa. Eru átökin orðin þau mannskæðustu í sögunni á Gasaströndinni.

Þrátt fyrir ályktun öryggisráðsins hélt ísraelskum sprengjum áfram að rigna yfir svæðið í nótt. Sögðu hjálparstarfsmenn að a.m.k. níu hefðu látið lífið. Meðal hinna látnu eru eiginkona, mágkona og fjögur börn eins leiðtoga í palestínska hernum en sjálfur særðist hann í árásinni.

Um 20 palestínumenn létust í árásum Ísraela í gær. Ellefu ísraelskir hermenn og þrír óbreyttir borgarar hafa látist frá því að átökin hófust þann 27. desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka