Vörpuðu sprengjum á hús fullt af fólki

Sameinuðu þjóðirnar fullyrða, að Ísraelsher hafi neytt um 110 Palestínumenn inn í hús í Zeitunhverfi í Gasaborg og síðan varpað á það sprengjum sólarhring síðar. Um 30 manns létu lífið í árásinni. Þetta sé alvarlegasta málið, sem komið hafi upp frá því Ísraelsmenn hófu hernað á Gasasvæðinu.

Skrifstofa SÞ, sem sér um samræmingu á mannúðarmálum, (OCHA) hefur eftir nokkrum sjónarvottum, að ísraelskir hermenn hafi rekið um 110 íbúa út úr húsum sínum í hverfinu og skipað þeim að koma sér fyrir í einu húsi og halda sér innandyra. Um helmingur fólksins var börn. Sólarhring síðar varpaði Ísraelsher fjölda sprengja á húsið. Þetta gerðist 4. janúar.

Í skýrslu OCHA segir, að þeir sem lifðu sprengingarnar af hafi gengið um 2 km vegalengd til Salah Ed Din og þaðan fluttu vegfarendur þá á sjúkrahús. Þrjú börn, það yngsta 5 mánaða, létust eftir að þau komu á sjúkrahús. 

Talsmaður Ísraelshers segir að verið sé að kanna þessar ásakanir og fleiri mál, þar sem ísraelskir hermenn hafa verið sakaðir um að skjóta á óbreytta borgara og að hermenn hafi ekki veitt særðu fólki aðstoð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert