Evrópskir og íraelskir stjórnarerindrekar segja tilraunir Egypta til að ná samkomulagi um vopnahlé á milli Ísraelaog Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu hafa strandað á því að ekki hafi náðst samkomulag um það á milli Egypta og Ísraela hvernig framfylgja ætti eftirliti með því að vopnum yrði ekki smyglað frá Egyptalandi til Gasasvæðisins . Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.
Segja embættismennirnir að Egyptar hafi ekki viljað fallast á kröfu Ísraela um að erlendir eftirlitsmenn færu með eftirlit á 15 km löngum landamærum Egyptalands og Gasasvæðisins.
Öryggisráð ísraelsku ríkisstjórnarinnar ákvað á fundi sínum í dag að halda hernaðaraðgerðum Ísraelshers á Gasasvæðinu áfram þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi í gærkvöldi samþykkt ályktun þar sem þess var krafist að vopnahléi yrði tafarlaust lýst yfir á svæðinu.
Fram kemur í yfirlýsingu ísraelsku stjórnarinnar að Ísraelar muni ekki fallast á vopnahlé og ekki kalla herlið sitt heim frá Gasasvæðinu fyrr en tryggt hafi verið að komið verði í veg fyrir vopnasmygl frá Egyptalandi til Gasasvæðisins.
Sérfræðingar á vegum Evrópusambandsins starfa þegar með Egyptum við landamæraeftirlit á svæðinu en aðkoma þeirra er skilgreind sem tæknileg aðstoð og munu Egyptar ekki vilja breyta því.
Palestínsku Hamas samtökin sem ráða Gasasvæðinu eru einnig andvíg því að erlendir aðilar komi að landamæraeftirliti þeirra megin landamæranna.