Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Navi Pillay, hefur hvatt til rannsóknar á því hvort Ísraelsher hafi gerst sekur um stríðsglæpi á Gaza-svæðinu, m.a. þegar gerðar voru sprengjuárásir á hús í grennd við Gaza-borg á sunnudag.
Embættismenn Sameinuðu þjóðanna segja að sólarhring áður en sprengjuárásirnar voru gerðar hafi ísraelskir hermenn flutt um 110 óbreytta borgara í húsið sem varð fyrir árásunum. Þar af var helmingurinn börn, að sögn embættismannanna.
Hermt er að Ísraelsher hafi síðan meinað læknum og björgunarmönnum í fjóra daga að fara á svæðið til að flytja á brott fólk sem særðist í árásunum. Björgunarmenn fundu þar meðal annars börn sem urðu fyrir árásunum.