Í það minnsta 800 manns hafa látið lífið á Gaza svæðinu síðan Ísrael hóf hernað sinn fyrir tveimur vikum. Talið er að um 3.300 hafi særst í átökunum. Engin lát eru á átökum þrátt fyrir samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að semja beri um vopnahlé þegar í stað.
Mannfall hefur einnig orðið í herbúðum Ísrael. Að minnsta kosti tíu ísraelskir hermenn hafa látist og þrír almennir borgarar, á undanförnum tveimur vikum.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleezza Rice, varði í dag mannfall í röðum óbreyttra borgara á Gaza. Benti hún m.a. á að Hamas-liðar notuðu þá sem skildi. Því væri afar erfitt að koma í veg fyrir að einhverjir féllu.