Áfram árásir á og frá Gasa

Ísraelskir sérsveitarmenn í gömlu borginni í Jerúsalem þar sem Palestínumenn …
Ísraelskir sérsveitarmenn í gömlu borginni í Jerúsalem þar sem Palestínumenn mótmæltu hernaði Ísraela á Gasasvæðinu í gær. AP

Ísraelar hafa haldið áfram loftárásum sínum á Gasasvæðið í nótt og Hamas-samtökin hafa skotið flugskeytum yfir landamæri Gasasvæðisins til Ísrael. Staðhæfa Hamas að flugskeyti þeirra hafi m.a. hitt herstöð ísraelska flughersins í nágrenni borgarinnar Tel Aviv. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

Ísraelar gerðu hins vegar árásir á auðar byggingar og svæði í Khan Younis, Beit Lahiya og í nágrenni Gasasborgar.  

Háttsettir embættismenn Hamas-samtakanna eru nú í Egyptalandi til að ræða hugsanlegt vopnahlé í átökum samtakanna og Ísraela en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krafðist þess aðfararnótt föstudags að vopnahléi yrði þegar lýst yfir. 

Mahmoud Abbas, kjörinn leiðtogi Palestínumanna, er einnig væntanegur til viðræðna við Hosni Mubarak Egyptalandsforseta í dag. Hann hefur lýst stuðningi við sáttahugmyndir Frakka og Egypta. Hann hefur hins vegar enga stjórn á Gasasvæðinu og er afstaða hans því talin hafa lítil áhrif til skamms tíma litið.

Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lýst því yfir að hann harmi að báðir aðilar skuli hafa hunsað kröfu ráðsins.  

Rúmlega átta hundruð Palestínumenn og þrettán Ísraelar hafa látið lífið í árásum og átökum á síðustu tveimur vikum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert