Sómalskir sjóræningjar hafa sleppt áhöfn risaolíuskipsins Sirius Star sem hafði verið í haldi þeirra í tæpa tvo mánuði. A.m.k. sex sjóræningjanna drukknuðu þegar báti þeirra hvolfdi eftir að þeir létu áhöfnina lausa og reyndu að sigla til lands með lausnarféð.
Sádi-arabískir eigendur risaolíuskipsins segja að áhöfnin sé á heimleið. Í áhöfninni voru 25 menn frá Bretlandi, Króatíu, Sádi-Arabíu, Filippseyjum og Póllandi og þeir eru allir heilir á húfi.
Hermt er að þyrla hafi látið lausnarféð, þrjár milljónir dollara, falla í fallhlíf á olíuskipið. Þegar sjóræningjarnir höfðu sleppt áhöfninni og reynt að sigla í land með lausnarféð hvolfdi báti þeirra. Að minnsta kosti sex sjóræningjanna drukknuðu og fjögurra er saknað. Hluti lausnarfjárins hvarf í sjóinn, að sögn leiðtoga sjóræningjanna.
Sirius Star var rænt 15. nóvember og er stærsta skip sem sómalskir sjóræningjar hafa rænt til þessa. Í skipinu voru tvær milljónir tunna af olíu.