Lögregla á flugvellinum í Los Angeles handtók í gærkvöldi karlmann, sem var með fjölda skotvopna, þar af tvær hlaðnar byssur, og mikið af skotfærum í bíl sínum. Lögregla segist þó ekki telja að maðurinn hafi ætlað að vinna neinum mein heldur hafi verið á flugvellinum til að sækja farþega.
„Hann tók bara slæma ákvörðun og hefði ekki átt að vera með öll þessi vopn," hefur AP fréttastofan eftir Jim Holcomb, flugvallarlögreglumanni.
Í bílnum voru 10 skammbyssur, fimm rifflar og gamall framhlaðningur. Byssurnar voru í kössum á palli bílsins þegar hann var stöðvaður við eftirlitshlið á flugvellinum. Ein skammbyssan og framhlaðningurinn voru hlaðin.
Byssueigandinn heitir Phillip Dominguez. Kona hans, Sue Dominguez, sagði við AP, að eiginmaður hennar hefði ætlað að skjóta í mark síðar um kvöldið ásamt vini sínum, sem hann var að sækja á flugvöllinn. Hún sagðist hafa frétt af handtöku eiginmannsins í sjónvarpsfréttum og talaði síðan við hann í síma.
Sue sagði að eiginmaður sinn væri löghlýðinn borgari sem væri afar gætinn þegar byssurnar hans ættu í hlut og hefði leyfi fyrir þeim.
Bandaríska alríkislögreglan FBI og lögreglan í Los Angeles rannsaka nú hvort byssurnar séu löglega skráðar.