Einn vinsælasti bloggari Suður-Kóreu, sem gengur undir nafninu Park en kallar sig Minervu á netinu, hefur verið handtekinn á kærður fyrir að dreifa fölskum upplýsingum um efnahagsmál ríkisins á netinu. Kæran hefur vakið heitar deilur í Suður-Kóreu um tjáningarfrelsi.
Bloggarinn Minerva aflaði sér virðingar og vinsælda á netinu fyrir að hafa spáð hárrétt fyrir um þróun efnahagsmála í heiminum, þ.á.m. um fall Lehman Brothers. Á liðnu ári birtust um 100 færslur á nafni Minervu með harðri gagnrýni á efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar og þótti málfarið gefa til kynna að þar færi sérfræðingur í efnahagsmálum. Minerva sætir nú kæru fyrir að dreifa fölskum upplýsingum á umræðuþræði í síðustu viku, um að ríkisstjórn Suður-Kóreu hefði skipað svo fyrir að þarlendar fjármálastofnanir og viðskiptafyrirtæki skyldu ekki festa kaup á bandarískum dollurum.
Dómari sem gaf út handtökuheimild á hendur Park lét þau orð falla í réttarsal í dag að málið „hefði áhrif á gjaldeyrismarkaðinn og trúverðugleika landsins út á við.“ Fá fordæmi eru fyrir því að bloggarar séu handteknir í Suður-Kóreu, sem hampar þeim titli að vera tæknivæddasta og best nettengda samfélag í heiminum. Gagnrýnendur segja að þessi þróun mála geti grafið undan tjáningarfrelsi á netinu.
„Það er eins og ritskoðun á netinu sé að hefjast frá og með deginum í dag,“ hefur AP fréttaveitan eftir öðrum s-kóreskum bloggara sem tjáir sig um málið. Mannréttindafélög hafa blandað sér í málið og krefjast þess að Park verði látinn laus og rannsóknin stöðvuð.