Risastór humar, sem veiddur var undan ströndum Nýfundnalands og átti að lenda á borðum matargesta í New York, fékk í gærkvöldi frelsi og var sleppt í sjóinn við Kennebunkport í Maine, skammt frá sumarhúsi George W. Bush, Bandaríkjaforseta. Humarinn, sem nefndur var George, var frelsinu að vonum feginn.
Krabbinn, sem vó um 9 kg, hafði verið í búri í veitingahúsinu City Crab and Seafood í 10 daga en félagar í bandarískum dýraverndunarsamtökum stóðu fyrir herferð fyrir frelsi Georges. Talsmenn samtakanna sögðu, að krabbinn væri hugsanlega um 140 ára gamall en sérfræðingar telja þó að George sé líklega um áttrætt.