Samningur í gasdeilu

Mirek Topolanek, forsætisráðherra Tékklands og Júlía Tímótsjenkó, forsætisráðherra Úkraínu, í …
Mirek Topolanek, forsætisráðherra Tékklands og Júlía Tímótsjenkó, forsætisráðherra Úkraínu, í Kænugarði í gærkvöldi. Reuters

Úkraínustjórn hefur skrifað undir samning um eftirlit með flutningum á rússnesku gasi til Evrópu gegnum Úkraínu og geta gasflutningar frá Rússlandi því hafist á ný. Rússar hættu gasflutningum til Evrópu um Úkraínu í síðustu viku og sökuðu Úkraínumenn um að taka hluta af gasinu til eigin nota. Því hefur Úkraínustjórn vísað á bug.

Júlía Tímótshenkó, forsætisráðherra Úkraínu, tilkynnti um þetta eftir að hafa átt viðræður við Mirek Topolanek, forsætisráðherra Tékklands í Kænugarði í gærkvöldi en   Topolanek miðlaði málum í deilu Rússa og Úkraínumanna.

Topolanek sagði, að Úkraínumenn hefðu fallist á öll skilyrði, sem Rússar hefðu sett fyrir áframhaldandi gasflutningum. Þar á meðal munu eftirlitsmenn frá Evrópusambandinu fylgjast með flutningunum. 

Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, sagði í morgun að hægt yrði að hefja gasflutninga til Evrópusambandsins um leið og eftirlitsmennirnir hefja störf. Hann sagði þó að stjórnvöld í Moskvu myndu ekki líða frekari gasþjófnað. 

Deilan hefur komið afar illa niður á íbúum í ýmsum löndum Austur-Evrópu, sem nota gas til húshitunar en þar er nú afar kalt.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert