Japanir hyggjast gefa Kambódíumönnum sem nemur 21 milljónum bandaríkjadala til að styrkja réttarhöldin gegn eftirlifandi leiðtogum Rauðu Khmeranna vegna þjóðarmorðs. Markmiðið er að leita réttlætis vegna þeirra 1,7 milljóna sem voru myrt af kommúnistum í fjögurra ára valdatíð þeirra á áttunda áratugnum.
Utanríkisráðherra Japans, Hirofumi Nakasone, hét því að veita styrkinn í dag, í tveggja daga opinberri heimsókn sinni til Kambódíu. Stríðsglæpadómstóllinn starfar undir bæði kambódískum og alþjóðalögum í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Sjóður dómstólsins reiðir sig að mestu á frjáls framlög frá erlendum styrktaraðilum og hefur átt erfitt með að standa undir kostnaði við réttarhöldin.
Japanir eru stærsti styrktaraðili Kambódíumanna í þessum efnum og hafa þegar veitt yfir 21 milljón bandaríkjadala til starfsins, en Frakkar, Þjóðverjar og Bretar hafa líka gefið styrki.
Málsóknin á hendur eftirlifandi yfirmönnum Khmer Rouge hefur gengið hægt fyrir sig síðan dómstóllinn var stofnaður og óttast margir að réttlætið nái aldrei fram að ganga. Áætlað var að réttarhöld hæfust yfir Nuon Chea, einum fimm fyrrum leiðtoga sem kærður er fyrir glæpi gegn mannkyninu, í byrjun þessa árs en talið er að þau muni tefjast vegna nýlegra ásakana um spillingu á hendur kambódísku dómurunum.