Tyrkneskur dómstóll dæmdi á föstudag fimm manns úr sömu fjölskyldu í lífstíðarfangelsi fyrir sæmdarmorð. Var fólkið dæmt fyrir morðið á Naile Erdas, 16 ára, árið 2006 en hún varð þunguð eftir nauðgun.
Var bróðir hennar dæmdur fyrir að myrða hana til þess að verja heiður fjölskyldunnar. Foreldrar hennar og tvær frændur voru einnig dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir að hvetja til glæpsins. Jafnframt var þriðji frændinn dæmdur í sextán ára og átta mánaða fangelsi fyrir að upplýsa ekki um morðið. Eru þetta einir þyngstu dómar sem hafa fallið í slíku morðmáli í Tyrklandi, samkvæmt upplýsingum frá kvennaréttindasamtökum í Tyrklandi.Erdas lét engan vita af þungun sinni fyrr en hún var lögð inn á sjúkrahús vegna tíðra höfuðverkja. Upplýstu læknar þá um þungun hennar. Þegar fjölskylda stúlkunnar hafði í hótunum og bauðst jafnframt til þess að greiða læknum mútur svo stúlkan yrði send heim ákváðu læknar að halda henni á sjúkrahúsinu og höfðu samband við lögreglu og saksóknara.
Viku eftir að Erdas fæddi barnið ákvað saksóknari að senda hana heim eftir að faðir hennar hét því að henni yrði ekki unnið mein. Bróðir hennar skaut hana hins vegar til bana einungis nokkrum klukkustundum eftir heimkomuna.