„Slæmu fréttirnar eru að guð er ekki til. Góðu fréttirnar að við þurfum ekki á honum að halda.“ Svona hljómar slagorðið sem strætisvagnar í ítölsku borginni Genóa munu bera frá og með fjórða febrúar nk. Hópur guðleysingja stendur að auglýsingaherferðinni sem hefur verið fordæmd af erkibiskupsdæminu í Genóa.
Farið var af stað með svipaðar herferðir í Bretlandi og á Spáni. Raunar hófst herferðin á Spáni í dag. Þar var slagorðið hins vegar: „Guð er líklega ekki til. Hættu því að hafa áhyggjur og njóttu lífsins.“ Þær hafa hlotið viðlíka viðtökur hjá kirkjunnar mönnum.