Hugsanleg árás helsta ógnin

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði á blaðamannafundi í Washington síðdegis, að mesta ógin, sem Barack Obama, væntanlegur forseti, þurfi að bregðast við, sé hugsanleg árás á Bandaríkin.  Þá sagði Bush að hætta stafaði enn af Norður-Kóreu og Íran en forsetinn kallaði löndin eitt sinn öxulveldi hins illa. 

„Helsta ógnin, sem hann þarf að mæta og aðrir forsetar á eftir honum þurfa  að bregðast við, er árás á land okkar," sagði Bush á fundinum, sem væntanlega verður hans síðasti í embætti. Obama tekur við forsetaembættinu 20. janúar.

„Ég vildi að ég gæti skýrt frá því, að þessi hætta væri liðin hjá en það er óvinur, sem vill valda Bandaríkjamönnum tjóni. Það verður helsta ógnin," sagði Bush, sem hafði verið forseti í tæpt ár þegar hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á New York og Washington 11. september 2001.

Þá sagði Bush, að Hamassamtökin á Gasasvæðinu verði að hætta flugskeytaárásum á Ísrael vilji þau ná samningum við Ísraelsher um varanlegt vopnahlé.

Bush ítrekaði að hann styddi stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna og að Hamas yrði að hætta árásum á Ísrael, sem hefði fullan rétt á að verja sig. Ísraelsmenn yrðu hins vegar að gæta þess að óbreyttir borgarar létu ekki lífið í hernaðaraðgerðum.

Á blaðamannafundinum varði Bush gerðir sínar í embætti Bandaríkjaforseta og vísaði á bug gagnrýni, sem herferð hans gegn hryðjuverkastarfsemi og stjórn bandarískra efnahagsmála hefur sætt. Sagðist Bush vera stoltur af verkum sínum.

„Það er ekki skortur á gagnrýnendum í þessu starfi," sagði Bush og bætti við, að hann hefði ekki eytt miklum tíma til að hlusta á upphrópanir þeirra. Hann sagði að Obama mætti einnig eiga von á harðri gagnrýni. 

„Hann mun gera það sem hann telur vera rétt. Ella er vandséð hvernig hægt er að lifa í sátt við sjálfan sig.

Þá sagðist Bush vera ósammála þeim, sem héldu því fram að staða Bandaríkjanna meðal þjóða heims hefði veikst í forsetatíð hans.  Bandaríkin væru enn táknmynd friðar í augum fólks um allan heim. 

Þá sagðist hann hafa sett öryggi Bandaríkjamanna ofar eigin vinsældum.

„Ég hef ekki áhyggjur af vinsældum. Ég hef meiri áhyggjur af stjórnarskrá Bandaríkjanna og af því hvernig hægt sé að fylgjast með því hvað óvinurinn er að hugsa." 

George W. Bush á blaðamannafundinum í Washington í dag.
George W. Bush á blaðamannafundinum í Washington í dag. Reuters
Bush á blaðamannafundinum í dag.
Bush á blaðamannafundinum í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert