Nú þegar 17 dagar eru liðnir frá því að Ísraelar hófu blóðsúthellingarnar á Gaza-svæðinu virðist vera komið að því að þeir geri það upp við sig hvort þeir eigi að herða landhernaðinn eða hætta hernaðinum, ef til vill án þess að ná því markmiði sínu að binda enda á vopnasmygl Hamas-manna frá Egyptalandi til Gaza-svæðisins.
Hamas-samtökin eru einnig á krossgötum. Fallist þau á vopnahlé verður Gaza-búum hlíft við enn meiri blóðsúthellingum og eyðileggingu, en það gæti einnig orðið til þess að samtökin næðu ekki því markmiði sínu að tryggja að landamæri Gaza yrðu opnuð.
Embættismenn í Ísrael íhuguðu í gær þann möguleika að færa hernaðinn á nýtt og hættulegra stig - senda hersveitir sínar inn á mjög þéttbýl svæði á Gaza til að reyna að hafa hendur í hári leiðtoga Hamas, eyðileggja vopn samtakanna og knýja þau til að fallast á vopnahlé samkvæmt skilmálum Ísraela. Þetta myndi leiða til enn meiri blóðsúthellinga og hörmunga meðal Palestínumanna og auka einnig líkurnar á mannfalli í herliði Ísraela. Mikil óvissa er um hvort slíkur hernaður myndi bera tilætlaðan árangur.
Ísraelar eiga einnig þann kost að hætta hernaðinum og samþykkja vopnahlé sem færði Hamas það sem samtökin vilja: að landamærin verði opnuð að nýju og Ísraelar hætti að halda Gaza-svæðinu í herkví til að reyna að koma Hamas frá völdum. Þetta myndi binda enda á blóðsúthellingarnar en líklegt er að Ísraelar þyrftu að sætta sig við að Hamas-samtökin styrktu stöðu sína á Gaza.
Ísraelar gætu einnig lýst yfir sigri og kallað herlið sitt á Gaza heim. Talið er að hernaðurinn hafi þegar borið þann árangur að Hamas-menn myndu hugsa sig tvisvar um áður en þeir hæfu nýja hrinu flugskeytaárás á Ísrael. Verði ekki komið upp alþjóðlegu eftirliti við landamærin gæti þessi kostur orðið til þess að Hamas-menn gætu haldið áfram að smygla vopnum frá Egyptalandi til Gaza-svæðisins.
Ísraelar gætu lýst yfir sigri og haldið hersveitum sínum á Gaza-svæðinu, hernumið það aftur eftir að hafa flutt hernámslið sitt þaðan árið 2005.
Alþjóðlegir sáttasemjarar sögðust í dag vona að hægt yrði að ná samkomulagi um vopnahlé. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og nú alþjóðlegur sendimaður í Mið-Austurlöndum, sagði að „undirstöðuatriði samnings“ væru til staðar og kvaðst vona að samið yrði um vopnahlé á næstu dögum.
Talsmaður utanríkisráðuneytis Egyptalands sagði að vopnahlésviðræður í Kaíró þokuðust í rétta átt. Hann taldi að Ísraelar og Hamas kynnu að samþykkja að hætta árásunum áður en gengið yrði frá samningnum í smáatriðum.