Grimmilegar árásir frá hákörlum við strendur Ástralíu hefur valdið skelfingu meðal sumarleyfisgesta sem heyra sögur af því að skepnurnar ráðist nú í auknum mæli á mannfólk. Þrjár árásir voru gerðar á fólk á sundi innan sólarhrings frá sunnudegi fram á mánudag.
Árásirnar voru gerðar aðeins tveimur vikum eftir að hákarl réðst á kafara og hafa árásirnar vakið upp umræður um hvort ofveiði hafi nú komið mannfólkinu á matseðil hákarlanna. „Mannfólkið er næst í röðinni í fæðukeðjunni,“ sagði hákarlaveiðimaðurinn Vic Hislop í útvarpsviðtali. „Þetta á eftir að versna.“ Að sögn sérfræðinga eru þó engin haldbær vísindaleg rök fyrir þessarri útskýringu.
51 árs gamall bankastarfsmaður, Brian Guest, hvarf í blóði og sporðaköstum þegar hann var að kafa með syni sínum suður af Perth á vesturströnd Ástralíu þann 27. desember. Þá særðist brimbrettakappi við austurströnd Sidney og annar í Tasmaníu á sunnudag. Í dag reif svo hákarl fót af kafara suður af Sidney.
Mikið hefur verið fjallað um árásirnar í áströlskum dagblöðum og hafa æsilegar og nákvæmar lýsingar auk ljósmynda fylgt frásögnunum.
Enn er meðaltal slíkra árása 1,2 á ári síðustu 50 árin og að sögn hákarlasérfræðingsins John West hefur árásunum fækkað ef eitthvað er, sé miðað við fjölgun mannkyns.