Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun þar sem hernaðaraðgerðir Ísraela á Gaza eru fordæmdar. Segir í ályktuninni að aðgerðir Ísraela séu margháttað brot á mannréttindum Palestínumanna. Af 47 meðlimum ráðsins greiddu 33 atkvæði með ályktuninni en einn var á móti. Fulltrúar ríkja Evrópusambandsins sátu hjá en það var fulltrúi Kanada sem greiddi atkvæði á móti.
Í ályktuninni eru Ísraelar ásakaðir fyrir að hafa markviss reynt að eyðileggja innviði Palestínu og að hafa ráðist gegn óbreyttum borgurum og sjúkrastofnunum.
Talið er að 870 Palestínumenn hafi látist frá því Ísraelar hófu árásir á Gaza þann 27. desember sl. Segja Ísraelar árásirnar vera liður í að fá Hamas til þess að hætta eldflaugaárásum á Ísrael.Í ályktuninni sem var samþykkt í Genf í Sviss í dag er hvatt til þess að eldflaugaárásum verði hætt en hvergi minnst á Hamas í því samhengi né á brot Hamas gegn óbreyttum borgurum í Ísrael.