Þrír ungir Danir, 16 til 19 ára, voru í dag dæmdir í þriggja til fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir morð á 16 ára tyrkneskum pilti á matsölustað í útjaðri Kaupmannahafnar.
Danirnir réðust að piltinum, Deniz Ozgur Uzun, í mars síðastliðnum þar sem hann sat á skyndibitastað. Árásin var tilefnislaus. Þremenningarnir komu akandi og hótaði einn þeirra að berja Uzun með hafnaboltakylfu.
„Þetta gerðist allt mjög hratt. Ég sá Uzun liggjandi í blóði sínu og mennirnir horfðu á hann hjálparvana og hlógu,“ sagði Mohammed Qaraday, 17 ára vinur Uzun fyrir dómi en hann var með Uzun þegar ráðist var á hann.
Uzun var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum.
Sá sem greiddi Uzun banvæna höggið með hafnaboltakylfunni sagði fyrir dómi að Uzun hefði ögrað sér með því að stara á sig.
Sá er þyngstan dóm hlaut er aðeins 16 ára en hann var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Átján ára bróðir hans var dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Nítján ára vinur bræðranna var dæmdur í þriggja ára fangelsi.
Árásarmönnunum var ennfremur gert að greiða foreldrum hins látna bætur að upphæð 76 þúsund danskar krónur.
Dómari sagði kynþáttafordóma ekki ástæðu morðsins. Móðir hins látna sagði eftir dómsuppkvaðningu að dómarnir væru allt of vægir.
Þremenningarnir hafa ákveðið að áfrýja til æðra dómstigs.