Eftirlýstum mafíumorðingja tókst að flýja undan réttvísinni með því að komast úr fylgsni sínu niður leynigöng og þaðan niður í skolpleiðslukerfið sem liggur undir bænum Caserta, nálægt Napólí, að því er fréttavefur The Times segir frá.
Lögreglan segir að Giuseppe Setola sem kemur við sögu í metsölubók Roberto Saviano um mafínu í Napólí, Gomorra og telst einn af 30 hættulegustu glæpamönnum Ítalíu, hafi sloppið úr greipum hennar þegar um 50 lögreglumanna, sérþjálfaðir í mafíuaðgerðum, gerðu áhlaup á felustað Setola.
Hann virðist hafa skriðið eftir skolpleiðslunum um hálfan annan kílómetra þar til hann komst upp um götuþró. Hann tók síðan bifreið af konu sem átti leið um eftir að hafa ógnað henni með byssu.
Bifreiðin fannst seinna yfirgefin og í henni öryggishjálmur með ljósi sem hann hefur notað á flóttanum um skolpleiðslukerfið. Eiginkona Setola, Stefania, hefur verið handtekin en hún hélt lögreglunni uppi á snakki meðan maður hennar kom sér undan niður leynigöngin. Lögreglan telur að tveir lífverðir hans hafi verið með honum.
Setola er einn af foringjum í Casalesi armi Camorra-mafíunnar og hann er talinn hafa farið fyrir vopnuðum flokki sem skaut til bana sex afríska innflytjendur í september sl. í mafíuuppgjöri út af eiturlyfjasölu.
Morðin urðu til þess að ítalska ríkisstjórnin lét til skarar skríða gegn Camorra með því að beita hernum ásamt viðbótarliðsstyrk lögreglunnar úr nálægum borgum. Innanríkisráðherra Ítalíu hefur sagt tök mafíunnar á Napólísvæðinu vera slík að jaðraði við borgarastyrjöld.
Kvikmynd gerð eftir bókinni Gomorra í leikstjórn Matteo Garrone hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndina. Salviano, höfundur bókarinnar, hefur sagst ætla að yfirgefa Ítalíu vegna líflátshótana en hefur þó ekki enn látið verða af því.