Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur lýst því yfir að Danir muni ekki höfða mál gegn Ísraelum eða kefja þá um bætur vegna skemmda sem þeir hafa unnið á byggingum sem byggðar voru fyrir styrki frá Dönum á Gasasvæðinu. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Haft var eftir Ullu Tørnæs, ráðherra þróunarmála, í blaðinu Berlingske Tidende í morgun að rannsókn fari nú fram á því hvort mögulegt væri að höfða slíkt mál.
Rasmussen sagði á blaðamannafundi í morgun að Ísraelar bæru ekki einir ábyrgð á átökunum á Gasassvæðinu og minnti á að það hafi verið Hamas-samtökin sem lýstu sex mánaða vopnahlé þeirra og Ísraela ógilt áður en átökin hófust.
„Ég get neitað því að stjórnin velti slíku fyrir sér,” sagði hann. Þá staðhæfði hann að Ísraelar sæti ósanngjarni gagnrýni vegna hernaðaraðgerða sinna á Gasasvæðinu.
„Það er mjög ósanngjarnt að gagnrýna einungis Ísraela,” sagði hann. „Við skulum ekki gleyma því að málið snýst einnig um Hamas-samtökin. Það voru Hamas-samtökin sem rufu vopnahléið og Hamas samtökin sem hófu átökin með því að senda flugskeyti inn í Ísrael. Ísraelar hafa að sjálfsögðu rétt á að verja sig.”
Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, er meðal þeirra sem gagnrýnt hafa Ísraela að undanförnu fyrir að beita of mikilli hörku í aðgerðum sínum á Gasasvæðinu undanfarna átján daga.
„Ég er undrandi yfir þessari umræðu um hlutföll,” sagði Rasmussen spurður um gagnrýni hans. „Það er ekki þannig að maður geti sagt að þar sem “einungis” tíu Ísraelar hafi látið lífið, megi ekki ráðast gegn Hamas. Það er ekki hægt að setja hlutina þannig upp.”
Palestínumenn segja 920 Palestínumenn hafa látið lífið í átökum og árásum Ísraela undanfarna átján daga en þrettán Ísraelar hafa látið lífið.