Hillary boðar breytta stefnu gagnvart Íran

Hillary Clinton, sem tilnefnd hefur verið í embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði þegar hún kom fyrir þingnefnd í dag að ný ríkisstjórn landsins muni fylgja nýrri og breyttri stefnu gagnvart Íran og leita eftir samskiptum sem kunni að verða árangursrík.

Yfirheyrslur utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings yfir Clinton hófust í dag en þingið þarf að staðfesta útnefningu Clinton í embættið. Clinton var vel fagnað þegar hún kom fyrir nefndina en búist er við af þingið staðfesti Clinton í ráðherraembættið innan nokkurra daga.

Í yfirlýsingu Clinton, sem birt var fyrir þingnefndarfundinn, segist hún telja að forustu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi hafi verið ábótavant undanfarin ár. Bandaríkin verði að nota það, sem hafi verið kallað „snjallvald" og nota sambland af diplómatískum, efnahagslegum, hernaðarlegum, lögfræðilegum og menningarlegum aðferðum í samskiptum við aðrar þjóðir. 

Segir hún að stjórn Obama hefði trú á utanríkismálastefnu, sem byggði á meginreglum og raunsæi en ekki harðri hugmyndafræði.  Hún segir að stundum kunni að vera nauðsynlegt að beita hervaldi og því verði beitt ef allt annað bregst til að vernda bandaríska þegna og hagsmuni.

Þá lagði hún áherslu á að bæta þurfi samskipti Bandaríkjanna við hefðbundnar vinaþjóðir en þau samskipti hafa oft verið stirð í forsetatíð Georges W. Bush. „Bandaríkin geta ekki hjálparlaust leyst þau vandamál, sem eru mest aðkallandi og heimurinn getur ekki leyst þau án hjálpar Bandaríkjanna," sagði Clinton.

Hillary sagði ekki berum orðum, að hún myndi taka upp viðræður við leiðtoga Írans verði hún utanríkisráðherra, en sagði að sú stefna, sem  . Bush fylgdi, hefði ekki borið árangur. Ríkisstjórn Bush hefur neitað að taka upp samningaviðræður við Írana nema þeir hætti auðgun úrans. 

Clinton sagði, að væntanleg ríkisstjórn Bandaríkjanna hefði áhyggjur af því hlutverki, sem Íranar léku í heiminum.  Þeir væru sakaðir um að styðja við hryðjuverkastarfsemi, afskipti af öðrum ríkjum og að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Sagði hún að ríkisstjórn Baracks Obama myndi gera það sem í hennar valdi stæði að draga úr þeirri hættu, sem af Írönum stafar, með samningum, viðskiptaþvingunum og bættum samskiptum við önnur ríki. Clinton bætti við, að stjórnvöld útiloki enga möguleika í þessum efnum  og virtist þar vísa til hugsanlegra hernaðaraðgerða.

„En við munum fylgja nýrri, ef til vill breyttri aðferðafræði," sagði Clinton, aðferðafræði sem kunni að bera árangur þótt engin trygging sé fyrir slíku. Íranar og Bandaríkjamenn hafa ekki haft stjórnmálasamskipti í þrjá áratugi.

Utanríkismálanefnd bandarísku öldungadeildarinnar yfirheyrir nú Hillary Clinton.
Utanríkismálanefnd bandarísku öldungadeildarinnar yfirheyrir nú Hillary Clinton. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert