Úgandski uppreisnarhópurinn Andspyrnuher Drottins hefur að sögn Sameinuðu þjóðanna myrt í það minnsta 537 manns og rænt öðrum 408 í norðausturhluta Austur-Kongó. Þá hafa 104.000 manns neyðst til að flýja átök sem brutust út í september síðastliðnum í héraðinu sem á landamæri að Suður-Súdan og Úganda.
„Margir þeirra sem hafa flúið heimili sín eru enn á vergangi, sérstaklega í nágrenni bæjarins Faradje sem varð illa úti í átökum í kringum jólin,“ segir Ron Redmond, talsmaður Flóttamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Herlið frá Austur-Kongó, Úganda og Suður-Súdan hafa háð sameiginlega baráttu gegn Andspyrnuhernum frá því í desember en það hefur orðið til að auka á ofbeldi af hendi uppreisnarmanna í garð almennra borgara.
Redmond segir starfsmenn Flóttamannastofnunarinnar hafa miklar áhyggjur af örlögum íbúanna sem séu fastir á átakasvæðum á landamærunum.