Óeirðir vegna kreppu í Lettlandi

Lögreglumenn beita táragasi gegn mótmælendum við þinghúsið í Riga.
Lögreglumenn beita táragasi gegn mótmælendum við þinghúsið í Riga. Reuters

Þúsundir manna tóku þátt í mótmælum við þinghúsið í Riga, höfuðborg Lettlands, í dag. Þeir kröfðust afsagnar stjórnarinnar og tafarlausra kosninga vegna efnahagskreppu í landinu.

Lögreglan áætlar að um 10.000 manns hafi tekið þátt í mótmælunum. Eru þetta fjölmennustu mótmæli í Lettlandi frá því að landið fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991.

Langflestir mótmæltu með friðsamlegum hætti en til átaka kom milli hundraða ungmenna og lögreglumanna sem vörðu þinghúsið. Mótmælendurnir köstuðu grjóti og brutu rúður. Lögreglumenn beittu táragasi og kylfum.

Að sögn lögreglu voru nær 100 mótmælendur handteknir og þrír lögreglumenn slösuðust. Skipuleggjendur mótmælanna fordæmdu ofbeldið en sögðu að óeirðirnar sýndu að stjórnin yrði að segja af sér.

Lettland gekk í Evrópusambandið árið 2004 og mikill hagvöxtur hefur verið í landinu þar til á síðasta ári. Talið er að landsframleiðslan hafi minnkað um 1,5-2% á síðasta ári og gert er ráð fyrir að samdrátturinn verði 5-8% á þessu ári.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur veitt Lettlandi lán að andvirði 7,5 milljarða evra. Þing landsins hefur samþykkt sparnaðaraðgerðir, hækkað skatta og minnkað ríkisútgjöldin verulega, meðal annars lækkað laun ríkisstarfsmanna um allt að 15%. Vaxandi verðbólga og atvinnuleysi hefur kynt undir gremju landsmanna. Margir kenna stjórn mið- og hægriflokkanna um efnahagskreppuna.

Auk þingkosninga vilja mótmælendurnir uppstokkun á flokkakerfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert