Ísraelskur orrustuflugmaður segist í samtali við AP fréttastofuna vera afar sorgmæddur yfir mannfalli í röðum óbreyttra borgara á Gasasvæðinu og segist hafa hætt við árásarferðir til að komast hjá því að verða fólki að bana.
Ísraelsmenn hafa gert harðar loftárásir á Gasasvæðið frá því hernaðaraðgerðir gegn Hamassamtökunum hófust þar 27. desember með það að markmiði að stöðva eldflaugaskot Hamasliða á Ísrael.
Orr, sem er 25 ára, segist vera stoltur af því að hafa hætt við árásir vegna þess að hætta hafi verið á að óbreyttir borgarar yrðu fyrir sprengjum.
„Ferðirnar sem ég man eftir eru þær þegar ég hef læst inn skotmark og í þann mund sem skotið er að ríða af sé ég barn í miðinu og ég breyti miðinu. Það er eftirminnilegt," segir hann.
Talið er að yfir 900 manns hafi látið lífið í hernaðaraðgerðunum á Gasasvæðinu og starfsmenn sjúkrahúsa þar segja að um helmingur þeirra sé óbreyttir borgarar. AP fréttastofan segir, að stríðsmenn Hamas hafi klæðst venjulegum fötum í átökunum og noti skóla, moskur og íbúðarhverfi til að skýla sér fyrir árásum. Þetta auki hættuna á að óbreyttir borgarar lendi í miðju átakanna.
Orr, sem vill ekki gefa upp fullt nafn eða láta mynda sig, segir að ísraelskir hermenn geri sér grein fyrir því að óbreyttir borgarar skaðist. „Okkur þykir það mjög leitt, ekki aðeins mér sem hermanni í flugvél heldur öllum borgurum þessa lands."
Hann segist hafa séð Hamasmenn nota óbreytta borgara sem mannlega skildi og segist hafa hætt við að skjóta í slíkum tilvikum. Hann bætti við, að þeir sem sökuðu Ísraelsmenn um að skjóta á óbreytta borgara hefðu rangt fyrir sér og þeir létu stjórnast af myndum í sjónvarpi.
Orr á að baki sjö ára þjálfun sem orrustuflugmaður. Hann segist hins vegar hefðu kosið að fá að halda áfram að skjóta á æfingarskotmörk.
„Ég hefði kosið að það væri ekkert stríð," segir hann. „Við höfum fengið nóg af stríði."