Bin Laden hvetur til heilags stríðs gegn Ísraelum

Osama bin Laden.
Osama bin Laden. Reuters

Osama bin Laden, foringi al-Qaida-hryðjuverkasamtakanna, hefur hvatt múslimaheiminn til að hefja heilagt stríð gegn Ísrael og gagnrýnt ríkisstjórnir arabalanda fyrir að standa gegn slíku stríði í nýjum skilaboðum sínum sem birt voru fyrr í dag og ætlað að kynda undir reiði í Miðausturlöndum vegna árása Ísraela á Gaza-svæðinu.

Bin Laden talaði inn á segulband og birtist upptakan á vef íslamskra öfgasinna þar sem al-Qaida kemur alla jafnan skilaboðum sínum á framfæri. Voru þetta fyrstu skilaboðin frá bin Laden frá því í maí og þau fyrstu sem hann birtir frá því að Ísrael réðst gegn Hamas-samtökunum á Gaza fyrir þremur vikum.

„Það er einungis til ein leið til að ná aftur al-Aqsa og Palistínu og það er með heilögu stríði á guðs vegum,“ segir bin Laden m.a. á segulbandsupptökunni sem tekur um 22 mínútur, og vísar þá m.a. til al-Aqsa moskunnar í Jerúsalem. „Skylda okkar er að hvetja fólk til heilags stríðs og láta ungdóminn fylkja sér undir merkjum heilags stríðs.“

Áreiðanleiki upptökunnar hefur ekki fengist staðfestur, en röddin líkist röddu bin Laden á fyrri upptökum hans.

Upptakan ber yfirskriftina „Ákall um heilagt stríð til að stöðva árásirnar á Gaza“ er leikin undir kyrrmynd af bin Laden og al-Aqsa moskunni en er án ensks texta og áhrifsbrellna sem venjulega fylgja slíkum skilaboðum.

Þetta þykir benda til þess að upptakan hafi verið gerð í hasti til að nýta reiðina sem ríkir á svæðinu út af árásum Ísraela á Gaza þar sem meira en 940 Palestínumenn hafa fallið - um helmingurinn þeirra óbreyttir borgarar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert