Gengi hlutabréfa lækkaði verulega í kauphöllum í Bandaríkjunum og Evrópu í dag vegna nýrra upplýsinga um að smásala hefði dregist meira saman vestra en gert var ráð fyrir og fleiri slæmra frétta af þróuninni í efnahagsmálum.
Hlutabréfavísitalan Dow Jones í New York lækkaði um 2,95% og Nasdaq-vísitalan um 3,67%. Var það einkum rakið til þess að samkvæmt nýjum hagtölum minnkaði smásalan í Bandaríkjunum í desember um 2,7%, rúmlega helmingi meira en spáð hafði verið. Fréttir um að bankar á borð við HSBC og Citigroup ættu í meiri erfiðleikum en talið var höfðu einnig áhrif.
Hlutabréfavísitalan FTSE 100 í London lækkaði um 4,97%. Í París lækkaði helsta hlutabréfavísitalan um 4,56% og í Frankfurt um 4,63% eftir að skýrt var frá því að landsframleiðslan í Þýskalandi hefði minnkað um 1,5-2% á síðasta fjórðungi liðins árs frá þriðja fjórðungnum.