Forsætisráðherra Taílands, Abhisit Vejjajiva, hafnar ásökunum Amnesty International um að öryggissveitir lögreglu hafi stundað kerfisbundnar pyntingar í suðurhluta landsins þar sem átök hafa geisað milli aðskilnaðarsinna og stjórnvalda. Amnesty sagði í skýrslu sem kom út í gær að fjórir hefðu látist eftir pyntingar hers og lögreglu í suðurhluta landsins.
Í skýrslu Amnesy kom fram að 34 tilvik pyntinga hefðu komið upp á borð hjá þeim og að á sama tíma og stjórnvöld í Taílandi fordæmdu pyntingar opinberlega þá útilokaði það ekki að slíkt gæti gerst.
Abhisit sagði að sett yrði af stað rannsókn á því hvort pyntingar hefðu verið stundaðar af öryggissveitum en hann gaf til kynna að hann efaðist um trúverðugleika skýrslu Amnesy.
Hann vísaði til rannsóknar í síðasta mánuði þar sem fram kom að leiðtogi múslima var talinn hafa látist eftir barsmíðar hermanna við yfirheyrslur. Sagði hann rannsóknina dæmi um að taílensk stjórnvöld reyndu ekki að hylma yfir pyntingar.
Abhisit mun á sunnudag fara í sína fyrstu heimsókn til suðurhluta landsins frá því hann tók við völdum í desember. Yfir 3.500 hafa týnt lífi frá því átök hófust í suðurhluta landsins árið 2004 milli aðskilnaðarsinna og stjórnvalda.