Palestínskur uppljóstrari slakar á í Ísrael

Ísraelskir hermenn hvílast áður en þeir halda inn á Gasa.
Ísraelskir hermenn hvílast áður en þeir halda inn á Gasa. JERRY LAMPEN

Abu Yusef heyrir óminn frá sprengjuflugvélum Ísraelsmanna þegar þær gera árás á heimaborg hans á Gasa, en hann styður gyðingaríkið eins og  þegar hann hóf fyrst að ljóstra upp leyndarmálum palestínskra félaga sinna.

„Ef það væri undir mér komið mundu Ísraelsmenn ekki einungis taka yfir Gasa heldur allan arabaheiminn líka,“ segir Yusef. Hann er 60 ára gamall, kominn á eftirlaun og býr í ísraelska bænum Sderot nærri landamærunum að Gasa.

Áður en Yusef kom til  Sderot fyrir 16 árum vann hann sem uppljóstrari fyrir ísraelska herinn. Fyrir það afbrot lítur meirihluti Palestínumanna á hann sem svikara og landráðamann.

Sl. átta ár hefur nýi heimabærinn legið undir árásum frá ýmsum bæjum á Gasa, þar á meðal Beit Lahiya, en þar fæddist Abu Yusef. Hann gefur ekki upp sitt rétta nafn.

Yusef nýtur lífsins sem ísraelskur borgari og fær eftirlaun frá stjórnvöldum. Hann býr í glæsilegu tveggja hæða húsi í rólegri götu þar sem trén umlykja allt.

Yusef segir að um 12 aðrar fjölskyldur uppljóstrara búi í Sderot og  samfélagið standi þétt saman. Fólkið forðast sviðsljósið.

„Ef Ísraelar tækju stjórnina á Gasa gæti ég farið til baka, en annars er líf mitt í hættu,“ segir Yusef. Vopnaðir hópar Palestínumanna, þar á meðal Hamas, hafa tekið tugi meintra landráðamanna af lífi.

Talið er að þúsundir uppljóstrara starfi fyrir Ísraela, en engar opinberar tölur eru gefnar upp. Í gegnum árin hafa upplýsingar þeirra hjálpað Ísraelum að komast undan árásum, ná mikilvægum hermönnum og taka aðra af lífi. Sumir uppljóstrararnir þiggja peninga, sumir eru þvingaðir til þjónustunnar og aðrir, eins og Abu Yusef, bjóðast til starfans.

Ísrael hefur misst  10 hermenn síðan stríðið hófst 27. desember sl. með gríðarlegum loftárásum. Allt að 1.000 Palestínumenn hafa fallið, þar af um 300 börn.

Fyrir nokkru sat Abu Yusef á verönd sinni og baðst fyrir á meðan börnin hans sex fengu lexíu í hebresku hjá einkakennara. Hann segist hafa skilið aðra fjölskyldu eftir í Gasa, nokkur börn og barnabörn. Þau búa í 10 kílómetra fjarlægð frá heimili hans í Sderot en hann hefur ekki séð þau síðan hann flúði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert