Bandarísk stjórnvöld saka Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, um ósannindi en Olmert sagðist hafa komið í veg fyrir það, með símtali til Georges W Bush, Bandaríkjaforseta, að Bandaríkin greiddu atkvæði með ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem þess er krafist að vopnahlé verði samið á Gasasvæðinu.
Olmert sagðist í ræðu, sem hann flutti í Ísrael á mánudag, hafa brugðist ókvæða við þegar hann sá ályktunartextann, sem aðildarríki öryggisráðsins höfðu náð samkomulagi um. „Náið í Bush í símann," sagðist Olmert hafa sagt. „Þeir sögðu að hann væri í miðri ræðu í Philadelphiu. Ég sagði að það skipti engu máli ég yrði að tala við hann. Þá steig hann niður úr ræðustólnum og talaði við mig," sagði Olmert.
Hann bætti við, að þetta samtal við Bush hefði haft þau áhrif, að Bandaríkjaforseti skipaði Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra, að sitja hjá í atkvæðagreiðslu í öryggisráðinu um ályktunina. Í ályktuninni er þess krafist að samið verði án tafar um varanlegt vopnahlé á Gasa. Hvorki Ísrael né Hamasamtökin hafa enn orðið við þeirri kröfu. Ályktunin var samþykkt með 14 atkvæðum en Bandaríkin sátu hjá.
„Hún var afar sneypuleg," sagði Olmert um Rice. „Hún hafði undirbúið og samið um ályktunina en á endanum greiddi hún ekki atkvæði með henni," bætti Olmert við.
Bæði Sean McCormack, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins og Tony Fratto, talsmaður Hvíta hússins, hafa vísað þessari lýsingu Olmerts á atburðarásinni á bug.
„Þetta er bara 100% algerlega ósatt," sagði McCormack. Fratto sagði að lýsing Olmerts væri ónákvæm.
Ísraelska blaðið The Jerusalem Post segir, að þessi ummæli hafi ekki verið hluti af formlegri ræðu Olmerts og hann hafi viðhaft þau í óformlegum tón. Sérfræðingar í málefnum Miðausturlanda segjast hins vegar vera gáttaðir á forsætisráðherranum.
„Það er erfitt að skilja hvað forsætisráðherranum gekk til. Ef þessi lýsing er rétt hefði maður viljað tala sem minnst um hana. Og ef hún er ósönn er undarlegt að velja mál, sem setur bæði Bandaríkjastjórn og Ísraelsstjórn í pínlega stöðu og kallar fram gagnrýni frá andstæðingum Ísraelsmanna," hefur blaðið eftir Steven Spiegel, forstjóra rannsóknarstofnunar við UCLA háskóla.