Ráðamenn í nokkrum löndum segjast vera vongóðir um að samkomulag náist á næstunni um vopnahlé á Gaza-svæðinu.
Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, sagði að höfuðdrættir vopnahléssamkomulags væru komnir fram þótt samningamennirnir stæðu enn frammi fyrir „alvarlegum vandamálum“. „Ég er viss um að samningaumleitanir okkar bera árangur,“ sagði Kouchner.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, tók í sama streng og kvaðst telja að umleitanirnar þokuðust í rétta átt. Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, sagði að samningamenn væru „mjög nálægt því að ná samkomulagi“.
Salah el-Bardawil, einn forystumanna Hamas, sagði við blaðamenn í Kaíró að hann hefði ekki óskað eftir breytingum á „höfuðdráttunum“ í tillögum Egypta um vopnahlé án þess að lýsa því yfir að samtökin féllust á tillögurnar.
Að sögn fréttastofunnar AP hafa Egyptar lagt til tíu daga hlé á árásunum á meðan samið verður um varanlegt vopnahlé.